Tandraberg kaupir kantsteinavél

Tandraberg hefur fest kaup á kantsteinalagningarvél og er nú þess albúið að leggja kantsteina fyrir sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga á Austurlandi.

Hamagangur var í öskjunni þegar fyrsta alvöru kantsteinasteypan var lögð við smábátahöfnina á Fáskrúðsfirði í síðustu viku. Steyptir voru um 500 metrar af kantsteini en áður höfðu starfsmenn Tandrabergs tekið eina stutta steypu í Neskaupstað.

Tandraberg ehf er aðalverktaki við framkvæmdirnar á Fáskrúðsfirði og er þetta þriðja smábátahöfnin í Fjarðabyggð sem fyrirtækið sér um útlitsupplyftingu og umhverfisfrágang á en Tandraberg sá einnig um umhverfisfrágang og fegrun smábátahafnanna á Eskifirði og Reyðarfirði. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á Fáskrúðsfirði í þessum mánuði.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar yfirvélstjóri kantsteinavélarinnar, Björn Hafsteinsson og vinnuflokkur hans lagði kantsteinana á Fáskrúðsfirði og má sjá forstjóra fyrirtækisins í essinu sínu sem sérlegur aðstoðarmaður yfirvélstjórans.