Annir við útskipanir

Miklar annir eru um þessar mundir við útskipanir á frystum afurðum í Fjarðabyggð. Tandraberg lestaði í dag ríflega 600 tonn af afurðum í Green Bergen á Eskifirði. Green Bergen sigldi rakleitt til Fáskrúðsfjarðar eftir lestun á Eskifirði í dag til lestunar.  

Þessa stundina er verið að leggja lokahönd á að lesta 3.500 tonn um borð í Green Maveric á Neskaupstað, en lestun hófst á fimmtudaginn í síðustu viku. Hlé var gert á lestun á meðan landað var um 2.000 tonnum úr Kristínu EA á laugardaginn. Á næstu dögum verður lestað í Neskaupstað í þrjú skip sem liggja í röð úti fyrir höfninni á Norðfirði og bíða þess að þau verði afgreidd. Á meðfylgjandi mynd má sjá skipin lóna í firðinum, Stigfoss innst, þá Harengus og yst Coral Mermaid. Myndin er fengin úr vefmyndavél Síldarvinnslunnar á vef Fjarðabyggðar.